Kolmunnaveiðin hefur gengið einstaklega vel að undanförnu. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Kolmunnaveiðiskipin hafa landað í Neskaupstað og á Seyðisfirði að undanförnu og ekkert lát verið á starfsemi fiskimjölsverksmiðjanna. Barði NK kom til Neskaupstaðar með 2.050 tonn á sunnudag og á mánudaginn kom Hákon EA með 1.600 tonn. Börkur NK kom síðan til Seyðisfjarðar sl. nótt með 3.200 tonn. Beitir NK er á miðunum og var kominn með 2.400 tonn um borð í morgun.

Nú er að líða að lokum kolmunnaveiðanna að sinni en veiðin hefur verið hreint ævintýraleg að undanförnu. Kolmunninn er gæðahráefni og hefur vinnsla hans í báðum fiskimjölsverksmiðjunum gengið einstaklega vel.