
Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonEnn veiða Síldarvinnsluskipin norsk-íslensku síldina. Beitir NK er á landleið með rúmlega 900 tonn og er væntanlegur fljótlega eftir hádegið. Tómas Kárason skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í fjórum holum. „Við vorum að veiðum suðaustarlega í Smugunni um 340 mílur frá Norðfirði. Það gafst heldur lítill tími til veiða vegna veðurs. Það brældi og gerði í reynd arfavitlaust veður þannig að það var ekkert annað að gera en að halda í land,“ segir Tómas.
Börkur NK er nú að veiðum í færeysku lögsögunni.
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í nótt eftir að hafa verið í slipp á Akureyri. Runólfur Runólfsson skipstjóri segir að farið hafi fram svonefnd 20 ára skoðun á skipinu. „Vélin var tekin upp, skipið þykktarmælt, farið yfir rafkerfið og fleira. Síðan var skrokkurinn málaður og skipið er voða fínt núna,“ segir Runólfur.
Ljósm. Þorgeir BaldurssonBjarni Ólafsson mun væntanlega halda til síldveiða.