Um borð í Beiti NK eru öryggismál í hávegum höfð. Ljósm.: Guadalupe Laiz
Árið 2018 var slysalaust um borð í Beiti NK og er það engin nýlunda. Síldarvinnslan festi kaup á núverandi Beiti árið 2015 og frá þeim tíma hefur ekkert slys orðið þar um borð. Sá Beitir sem var á undan þessum var einnig nánast slysalaus árum saman. Árangurinn hjá Beitismönnum á sviði öryggismála er athyglisverður og eru skipstjórarnir, þeir Sturla Þórðarson og Tómas Kárason, stoltir af honum. Í áhöfn Beitis eru átta manns í hverri veiðiferð.
Tómas Kárason segir að góður árangur á sviði öryggismála skýrist fyrst og fremst af rótgróinni og samhentri áhöfn ásamt því að öryggisfræðslu sé skipulega sinnt. „Um borð í Beiti ríkir ákveðinn andi hvað öryggismálin varðar. Allir í áhöfninni eru uppteknir af því að öryggisreglum sé fylgt og menn eru sífellt að minna hvern annan á reglurnar. Vinnuaðferðirnar um borð eru rótgrónar og þar þekkja allir sitt hlutverk til hins ítrasta. Það hjálpar líka til að það eru afar litlar breytingar í áhöfninni og hver einasti maður er reynslumikill. Þeir vinnustaðir innan fyrirtækisins sem ná góðum árangri á sviði öryggismála fá ákveðna fjárupphæð í viðurkenningaskyni í lok hvers árs, en ætlast er til að fjármununum sé síðan ráðstafað til góðra málefna. Við höfum fengið slíka upphæð árum saman og við höfum meðal annars látið peningana ganga til björgunarsveitarinnar í Neskaupstað og látið fjölskyldur sem eiga í vanda vegna veikinda njóta þeirra. Áhöfnin er stolt af að geta látið gott af sér leiða með þessum hætti,“ segir Tómas.
Sturla Þórðarson tekur undir með Tómasi og segir að stefnan sé að tryggja áframhaldandi slysaleysi um borð í Beiti. „Menn eru afar ánægðir með árangurinn og það er mikilvægt að tryggja að engin breyting verði á þessu,“ segir Sturla.