Barði NK á loðnumiðunum. Ljósm. Björn Steinbekk

Hjá Síldarvinnslunni hefur verið samfelld vinnsla á loðnuhrognum frá 5. mars. Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins í Neskaupstað, segir að loðnuvertíðin hafi verið einstök. „Þessi vertíð hefur verið afar hagstæð að öllu leyti. Veiðin hefur verið góð og veður hefur nánast ekkert truflað hana. Þá hefur loðnan sem veiðist verið frábært hráefni og hrognatíminn sem nú stendur yfir er til að kóróna þetta allt saman. Hrognin eru afar falleg og allir þættir vinnslunnar hafa gengið eins og í sögu; kreistingin, pökkunin og frystingin. Það stefnir í metvertíð hér í Neskaupstað hvað hrognin varðar,“ segir Geir Sigurpáll.

Nú er verið að landa loðnu til hrognavinnslu úr Barða NK í Neskaupstað en hann kom með fullfermi eða 2.250 tonn. Beitir NK bíður með um 1.800 tonn og hefst löndun í hrognavinnslu úr honum þegar löndun úr Barða lýkur í dag. Áður en Beitir kom til Neskaupstaðar hafði hann landað um 1.000 tonnum af farminum á Seyðisfirði. Gert er ráð fyrir að landað verði úr Bjarna Ólafssyni AK þegar löndun úr Beiti lýkur. Bjarni Ólafsson er á landleið með um 1.700 tonn og mun landa hluta farmsins á Seyðisfirði áður en hann landar í hrognavinnsluna í Neskaupstað.

Heimasíðan ræddi stuttlega við Þorkel Pétursson, skipstjóra á Barða, og spurði um gang veiðanna. „Það gekk vel að veiða í skipið. Við vorum norðvestur af Garðskaga og fylltum í fjórum köstum. Það er mikið af kellingu í aflanum og það ætti að koma drjúgt af hrognum úr þessu. Nú er farið að síga á seinni hluta vertíðarinnar. Loðnan er farin að leggjast en vonandi skilar vestanganga til okkar nýju efni. Við munum halda beint á miðin að löndun lokinni og í gær voru bátarnir að veiðum bæði á Faxaflóa og Breiðafirði. Vonandi verða lok vertíðarinnar jafngóð og vertíðin hefur verið hingað til,“ segir Þorkell.