Skötuveislukóngarnir Guðjón B. Magnússon og Halldór Þorbergsson.  Upplýsingar um TVN-gildi skötunnar eru upp á vegg. Ljósm. Jón Már JónssonSkötuveislukóngarnir Guðjón B. Magnússon og Halldór Þorbergsson.
Upplýsingar um TVN-gildi skötunnar eru upp á vegg. Ljósm. Jón Már Jónsson
Allt frá árinu 2000 hefur verið boðið til skötuveislu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á Þorláksmessu en þar sem Þorláksmessu ber nú upp á laugardag fór skötuveislan fram í dag. Lílega er þetta eina skötuveislan á landinu þar sem styrkur skötunnar er árlega mældur. Mælt er hve mikið ammoníak er í skötunni og reiknað út svonefnt TVN-gildi. Ef TVN-gildi í hráefni verksmiðjunnar fer yfir 100 taka viðvörunarbjöllur að klingja en þetta á aldeilis ekki við um skötuna. Í veislunni núna mældist TVN – gildi skötunnar hvorki meira né minna 851,5 og þótti hún afar góð. Að vísu er þetta ekki hæsta gildi sem mælst hefur í skötuveislum í verksmiðjunni, en hæst hefur það farið í 974. 
 
Það voru þeir Guðjón B. Magnússon og Halldór Þorbergsson sem lengi sáu um framkvæmd skötuveislanna, fyrst með góðri hjálp Hjördísar Arnfinnsdóttur. Í fyrra fréttist að sjónvarpið ætlaði að koma í veisluna og gera frétt um hana og þá voru þeir Guðjón og Halldór settir af. Það voru yngri menn sem rændu völdum og stýrðu þeir Jóhann Hákonarson og Stefán Pétursson veislunni. Ungu mennirnir töldu að andlit þeirra Guðjóns og Halldórs hentuðu engan veginn sjónvarpi og því væri nauðsynlegt að skipta um valdhafa. Nú í ár náðu Guðjón og Halldór hins vegar aftur völdum og fullyrða þeir að sannast hafi í fyrra að yngri menn hafi ekkert lag á því að halda skötuveislu og því sé stjórn þeirra á veislunni tryggð til framtíðar.
 
Starfsmenn verksmiðjunnar fullyrða að hér sé um að ræða einu skötuveisluna í heiminum þar sem styrkur skötunnar er mældur með vísindalegum hætti. Þegar þeir eru spurðir um veisluna segja þeir alls ekki einungis að skatan hafi verið sterk heldur gefa þeir upp TVN- gildi hennar. Þetta er meiri nákvæmni en annars staðar þekkist.