Vilhelm Þorsteinsson EA er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með rúmlega 900 tonn af síld sem fékkst austur af landinu. Heimasíðan ræddi við Guðmund Þ. Jónsson skipstjóra. „Við fengum aflann í einum fimm holum á Rauða torginu. Það er ekki mikið af síld að sjá á þessum slóðum en hún er þarna í smátorfum. Athyglisvert er að töluvert er af íslenskri sumargotssíld í aflanum og það er ánægjulegt að sjá að sú síld virðist vera að rétta verulega úr kútnum austur af landinu. Við vorum eina íslenska skipið á þessum slóðum en þarna voru hins vegar Færeyingar. Nú er þessum veiðum lokið hjá okkur og það er í reynd allur kvóti eiginlega búinn. Ég gæti trúað að haldið verði til kolmunnaveiða eftir áramótin og svo er það auðvitað loðnan,“ segir Guðmundur.