Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1030 tonn af íslenskri sumargotssíld. Líklega er um að ræða síðasta síldarfarminn sem tekinn verður til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í ár. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að hér sé um 270 gramma síld að ræða og líti hún ágætlega út. „Við fengum þessa síld í fjórum holum í Kolluálnum. Í hverju holi var togað í 4-6 tíma. Það var bölvuð ótíð alla veiðiferðina og við enduðum hana í 30 metra vindi. Nú fara menn að hugsa um annað en síld. Það á eftir að veiða einhvern svolítinn kolmunna núna í lok ársins hjá fyrirtækinu en nú er mest hugsað um loðnuna. Við erum bjartsýnir hvað varðar aukinn loðnukvóta. Það hefur verið góð fylgni á milli ungloðnumælinga og kvóta og mælingarnar eiga að gefa tilefni til bjartsýni hvað varðar kvótaaukningu. Það hlýtur að finnast meiri loðna við frekari leit,“ segir Hjörvar.