Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með um 1.100 tonn af síld sem fékkst austur af landinu. Meirihluti aflans er norsk-íslensk síld en nokkuð er einnig af íslenskri sumargotssíld. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra og spurði fyrst hvort mörg íslensk skip væru enn að síldveiðum eystra. „Nei, við vorum eina íslenska skipið að veiðum núna. Þarna voru einnig Færeyingar en þeir mega veiða vestur af 11 gráðum og 30 mínútum. Þeir hafa verið að fá eitthvað. Það voru stórar og fínar lóðningar þar sem við vorum í kantinum á Norðfjarðardýpinu en það er eins og síldin sé á leiðinni út af kantinum og fara að strauja austur í haf. Maður veit þó aldrei fullkomlega upp á hverju hún tekur. Við fengum þessi 1.100 tonn í fjórum holum og það var stutt dregið, aldrei meira en í 2-3 tíma. Síldin er stór og falleg og mun örugglega henta mjög vel til vinnslu í fiskiðjuverinu,“ segir Tómas.
Börkur NK er að veiðum á íslenskri sumargotssíld vestur af landinu og hefur aflað vel.