Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er ein þeirra verksmiðja sem hefur verið rafvædd. Ljósm. Hákon Ernuson
Fyrir rúmlega tuttugu árum hófu sumar fiskimjölsverksmiðjur landsins að fikra sig áfram í átt til rafvæðingar. Fyrstu skrefin fólust í því að settir voru upp rafskautakatlar til gufuframleiðslu. Hjá fyrirtækjunum sem áttu verksmiðjurnar vaknaði snemma áhugi fyrir því að rafvæða þær enn frekar enda fiskimjölsiðnaðurinn sá iðnaður á Íslandi sem notaði mesta olíu sem orkugjafa. Ýmis vandamál komu upp sem tengdust rafvæðingunni en árið 2010 urðu þáttaskil þegar sérfræðinganefnd stjórnvalda skilaði af sér skýrslu um möguleika til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda í landinu og gerðu stjórnvöld niðurstöður nefndarinnar í reynd að sinni stefnu. Hvöttu stjórnvöld til áframhaldandi framkvæmda við rafvæðingu verksmiðjanna og rafvæddust þær hver af annarri en fyrirtækin sömdu um nýtingu á ótryggri orku til framleiðslustarfseminnar. Helstu rökin fyrir rafvæðingunni voru eftirtalin:
– Rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna var án efa einhver umhverfisvænasta framkvæmd sem unnt var að ráðast í á landinu. Með rafvæðingunni leysti græn endurnýjanleg orka olíu af hólmi.
– Útblástur gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunum myndi minnka mikið við rafvæðinguna.
– Rafvæðingin myndi stuðla að betri nýtingu á orku í landinu að því gefnu að unnt væri að flytja orkuna á milli landshluta
– Rafvæðingin yrði gjaldeyrissparandi þar sem innlend orka kæmi í stað innfluttrar.
Útblástur minnkað um 66%
Fiskimjölsverksmiðjurnar voru rafvæddar með miklum tilkostnaði í góðri trú um að raforka yrði til staðar í verulegum mæli í framtíðinni og unnt yrði að draga úr olíunotkun. Og rafvæðingin skilaði svo sannarlega árangri. Árið 2003 blésu fiskimjölsverksmiðjurnar út í andrúmsloftið 116,3 kg. af koltvísýringi á hvert hráefnistonn en á árinu 2014 fór útblásturinn niður í 39,4 kg. Þarna var um að ræða 66,1% minnkun.
Hinn góði árangur sem hefur náðst með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna virðist ætla að verða skammvinnur. Samningum sem höfðu verið í gildi um orkuverð og voru í reynd ein helsta forsendan fyrir rafvæðingu verksmiðjanna var sagt upp. Gerð var krafa um meira en tvöföldun á orkutaxtanum og að auki reyndist ekki unnt að bregðast við aukinni orkuþörf í landinu með framleiðsluaukningu á rafmagni þannig að sífellt minnkuðu möguleikar verksmiðjanna á að fá rafmagn til sinnar starfsemi.
Verksmiðjurnar afgangsstærð
Í lok ágústmánaðar tilkynnti Landsvirkjun síðan fyrirvaralaust að ótrygg orka til fiskimjölsverksmiðjanna yrði skert þar sem vatnsbúskapur virkjana væri erfiður og miðlunarlón ekki nánda nærri full. Á sama tíma var tilkynnt um hugsanlega skerðingu til annarra notenda ótryggrar orku og orku til stóriðju. Úr vatnsbúskapnum hefur ræst verulega og samkvæmt fréttum hefur almennt verið horfið frá skerðingu á ótryggri orku og orku til stóriðju en skerðingunni á orku til fiskimjölsverksmiðja hefur hins vegar ekki verið aflétt. Fiskimjölsverksmiðjurnar virðast vera afgangsstærð í þessu sambandi. Hvar eru nú stjórnvöld sem á sínum tíma hvöttu til rafvæðingar verksmiðjanna af umhverfisástæðum ? Er rafvæðing verksmiðjanna ef til vill unnin fyrir gíg ?
Það er staðreynd að rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna er mikilvægt skref í þá átt að Ísland nái að uppfylla þær skuldbindingar sem það hefur gengist undir á sviði loftslagsmála. Eru þær skuldbindingar horfnar úr huga stjórnvalda ?