Lísa Margrét Rúnarsdóttir háseti á frystitogaranum Blængi NK. Ljósm. Hákon ErnusonLísa Margrét Rúnarsdóttir háseti á frystitogaranum Blængi NK.
Ljósm. Hákon Ernuson
Hún heitir Lísa Margrét Rúnarsdóttir og er háseti á frystitogaranum Blængi NK. Hún er tvítug að aldri og segist vera Vestmannaeyingur en hefur dvalið víða. Til dæmis var hún í framhaldsskóla í Brussel þar sem faðir hennar hefur starfað. Þaðan útskrifaðist hún árið 2016. Lísa Margrét hefur lokið tveggja ára námi í hjúkrunarfræðum við Háskólann á Akureyri en nú hefur hún ákveðið að stefna að námi í læknisfræði. Að aflokinni núverandi veiðiferð ætlar hún að byrja að læra fyrir inntökupróf í læknisfræðina.
 
Heimasíðan tók Lísu tali áður en Blængur hélt til veiða sl. þriðjudag, en það er önnur veiðiferðin sem hún er í áhöfn skipsins. Óvissa ríkir um framhald veru Lísu um borð í Blængi enda er ráðgert að skipið fari í slipp að lokinni yfirstandandi veiðiferð. Hafa skal í huga að Lísa er fyrsta konan sem er í áhöfn Blængs eftir að Síldarvinnslan eignaðist skipið.
 
Þegar Lísa er spurð um hlutverk hennar í síðasta túr Blængs stendur ekki á svari. „Ég er bara venjulegur háseti hér um borð. Ég sinnti öllum störfum í vinnslunni og síðan var ég einnig fjórði maður uppi á dekki og var hægri hönd netamannsins. Þetta var erfitt, en skemmtilegt og lærdómsríkt. Fyrsta nóttin um borð var mjög erfið. Þá var hörkubræla og ég kastaðist til í kojunni en svo byrjaði vaktin klukkan fjögur. Þegar vaktin var að byrja spurði ég sjálfan mig: Hvað ertu eiginlega búin að koma þér útí, Lísa ? Síðan vandist þetta og mér þótti gaman að vinnunni“.
 
Hvernig skyldi hafa verið tekið á móti henni um borð? „Strákarnir tóku mjög vel á móti mér og ég myndi segja að nýliðafræðslan um borð sé til fyrirmyndar. Í túrnum var haldin æfing þar sem maður átti að hafa slasast niðri í frystilestinni og þyrla átti að koma til að sækja hann eftir 45 mínútur. Við þurftum að hlúa að manninum, koma honum upp og gera hann tilbúinn um borð í þyrluna. Þetta var gagnlegt og menn ráku augun í sitthvað sem betur mátti fara í þessu ferli“.
 
Var vinnan um borð í fyrsta túrnum ekki líkamlega erfið? „Jú, hún var það. Síðan fannst mér líka svona langur túr vera andlega erfiður. Það skiptir hins vegar öllu máli að það ríki góður andi um borð í svona skipi og það er gott andrúmsloft um borð í Blængi. Í vinnslunni var fyrst og fremst unnin grálúða og reyndar líka þorskur í þessum fyrsta túr mínum. Lúðan er hausuð, sporðskorin, skafin innan, pökkuð, fryst og sett í kassa áður en hún fer í frystilestina. Þorskurinn er flakaður, snyrtur og pakkaður með hefðbundum hætti áður en hann er frystur.  Ég var frá upphafi staðráðin í að standa mig vel og ég held ég hafi gert það. Mér var til dæmis sagt að ég hefði aldrei fengið að fara og starfa uppi á dekki ef ég hefði ekki staðið mig í vinnslunni. Og ég hefði reyndar heldur ekki fengið að fara annan túr. En nú er ég komin um borð og túr númer tvö er framundan og ég hlakka bara til,“ sagði Lísa Margrét að lokum.