Ísfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE komu báðir til heimahafnar í gær með fullfermi eða á milli 70 og 80 tonn. Bæði skip munu síðan halda til veiða á ný á morgun. Heimasíðan ræddi við þá Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey. Birgir sagði að veður hefði verið þokkalegt í veiðiferðinni miðað við árstíma. „Það var engin blíða en varla hægt að kvarta. Lengst af var austan kaldi og dálítill fræsingur. Aflinn hjá okkur var mest ýsa og ufsi. Við byrjuðum að veiða á Gerpisflaki og sigum síðan suður á Breiðdalsgrunn. Þarna var ágætis nudd. Við enduðum síðan á Öræfagrunni,“ sagði Birgir Þór.
Jón tók undir með Birgi og sagði vart unnt að kvarta undan veðri. „Við lentum í brælu í upphafi túrsins en þá vorum við að veiða á Brettingsstöðum, en síðan var veðrið þokkalegt. Við byrjuðum í þorski en héldum síðan suður með Austfjörðum og fengum mest ýsu. Það var sérstaklega staldrað við á Gerpisflakinu. Við kláruðum síðan túrinn í Skeiðarárdýpinu,“ sagði Jón.