Vestmannaey VE að landa í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu báðir í gær auk þess sem Bergey dró Bylgju VE að landi eftir að hún hafði fengið veiðarfæri í skrúfuna. Vestmannaey landaði í Neskaupstað en Bergey dró Bylgju til Akureyrar og landaði þar. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að afli skipsins hefði verið 73 tonn eða fullfermi. “Þetta var mest ufsi og ýsa og dálítið af karfa. Þetta var í reyndinni fínn túr og loksins kom dálítið ufsaskot sem lengi hefur verið beðið eftir. Aflann fengum við frá Skaftárdýpi og austur á Mýragrunn. Við fórum út eftir löndun og erum nú í Berufjarðarálnum. Hérna er sjórinn býsna kaldur og heldur lítið um fisk en hérna verðum við varir við loðnu,” segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagðist ekki hafa verið með skipið í síðasta túr. “Það var Ragnar Waage Pálmason sem var með skipið. Þeir voru að fiska á Vestfjarðamiðum, fengu ýsu í Þverálsbotninum og þorsk á Strandagrunni. Þarna var ágætis veiði. Bylgja VE fékk í skrúfuna á Strandagrunni og þá tók Bergey hana í tog. Bylgja var síðan dregin í góðu veðri  í 150 mílur til Akureyrar þar sem mínir menn lönduðu rétt tæpum 60 tonnum. Ég kom um borð á Akureyri og haldið var til veiða í gærkvöldi að löndun lokinni. Nú erum við að keyra austur og ætlum að reyna fyrir okkur út af Langanesi til að byrja með,” segir Jón. 

Bergey VE tekur Bylgju VE í tog. Ljósm. Hákon Seljan