Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE öfluðu vel á nýliðnu fiskveiðiári. Afli Vestmannaeyjar var 4.158 tonn og afli Bergeyjar var 3.980 tonn. Athygli vekur hve hátt hlutfall afla skipanna var ýsa. Vestmannaey landaði 1.160 tonnum af ýsu og Bergey 1.230. Fiskuðu togararnir miklu meira af ýsu en önnur skip og er þriðja aflahæsta skipið í ýsu einungis hálfdrættingur á við þá. Heimasíðan hafði samband við Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey, og spurði hann út í ýsuveiðarnar. „Við höfum alltaf lagt áherslu á ýsuveiðar. Bergur-Huginn átti góðan ýsukvóta og hann hefur aukist eftir að Síldarvinnslan keypti fyrirtækið. Ýsuveiðar hafa því löngum verið meginþemað hjá okkur en auðvitað fer það eftir kvótastöðunni hve mikið hefur verið unnt að veiða. Ýsuveiðarnar hafa gengið afar vel að undanförnu ekki síst vegna þess að við höfum meiri þorskkvóta en áður. Hér áður fyrr þurftum við oft að flýja svæði þar sem aflinn var blanda af ýsu og þorski en nú er ekki þörf á því vegna aukins þorskkvóta. Almennt höfum við miklu meiri kvóta eftir að Síldarvinnslan keypti útgerðina og því erum við frjálsari hvað varðar veiðarnar. Við eltum ýsuna víða, en hún heldur sig á ákveðnum svæðum á tilteknum árstímum. Við erum fyrir austan á haustin en færum okkur svo suður eftir og veiðum við Eyjar þegar nálgast vertíðina,“ sagði Birgir.