Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE halda áfram að landa fyrir austan. Vestmannaey landaði fullfermi í Neskaupstað í gær og Bergey landar á Seyðisfirði í dag. Heimasíðan ræddi við Ragnar Waage Pálmason, skipstjóra á Bergey, og spurði hvort ekki væri um stuttan túr að ræða hjá skipinu. „Jú, hann var stuttur þessi. Við lönduðum nánast fullfermi í Neskaupstað á mánudag og fórum strax út eftir löndun. Þá var haldið á Glettinganesflak og þar tókum við þrjú hol á 14 tímum. Aflinn var um 25 tonn og var haldið til Seyðisfjarðar í gær vegna veðurs. Aflanum verður landað í dag og við munum halda á ný til veiða í kvöld. Hann spáir ekki vel um helgina en það hlýtur að vera hægt að finna glufu einhversstaðar til að fiska í. Það hafði verið rætt um að við lönduðum í Eyjum en veðrið breytti þeim áformum,“ segir Ragnar.
Vestmannaey hefur legið í Norðfjarðarhöfn frá því að löndun lauk í gær vegna veðurs en ráðgert er að skipið haldi til veiða í dag.
Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 67 tonnum á Seyðisfirði í gær eftir stuttan túr. Uppistaða aflans var þorskur og ýsa. Skipið mun halda á ný til veiða í dag.