Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu í heimahöfn í morgun. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu báðir góðum afla í heimahöfn í morgun. Vestmannaey hélt til veiða á ný strax að löndun lokinni en Bergey mun stoppa í landi í tvo daga. Að sögn Arnars Richardssonar, rekstrarstjóra Bergs-Hugins, hafa aflabrögð að undanförnu verið heldur lakari en á sama tíma síðustu ár. Á móti kemur að fiskverð er hátt.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veðrið hafi stjórnað síðustu veiðiferð. „Við byrjuðum í Reynisdýpi, héldum síðan á Öræfagrunn og þá á Mýragrunn. Farið var enn austar eða í Hornafjarðardýpið og Lónsdýpið og síðan sömu leið til baka. Við vorum endalaust á flótta undan veðri og það var bræla allan túrinn að einum degi undanskildum. Þetta tekur svolítið á en það er víst kominn vetur, það fer ekkert á milli mála. Aflinn var ufsi, ýsa og karfi að auki. Núna erum við á útleið frá Eyjum og erum staddir í Háfadýpinu. Það er hérna stífur norðaustanstrengur og vindmælirinn sýnir 21 meter,“ segir Egill Guðni.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Agli Guðna og segir að veðrið hafi verið leiðinlegt. „Það var sannast sagna skítabræla allan túrinn. Við vorum á Öræfagrunni nánast allan tímann og fengum þar ýsu og ufsa. Við enduðum svo á Péturey og Vík. Nú tökum við út stopp og höldum ekki til veiða á ný fyrr en á fimmtudagsmorgun,“ segir Jón.