Endurnýjaðir togvírar hjá Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Í septembermánuði hafa ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE verið að veiðum fyrir austan land og að mestu landað í Neskaupstað en einnig á Seyðisfirði. Vestmannaey landaði loksins í heimahöfn í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag og Bergey landað þar síðan í gær. Skipin eru nú að taka áhafnarfrí í Eyjum. Heimasíðan ræddi við Egil Guðna Guðnason, skipstjóra á Vestmannaey, og spurði hvernig fiskast hefði fyrir austan. „Það hefur fiskast alveg þokkalega. Aflinn hefur verið blandaður en áfram halda vandræðin með ýsuna. Það er allsstaðar ýsa og skipin eru á flótta undan henni. Nú urðum við að fara til Eyja og taka áhafnarfrí og síðan var einnig skipt um togvíra. Það var kominn tími á að endurnýja vírana en það hefur ekki áður verið skipt um víra á þessu skipi eða í ein tvö ár. Aflinn, sem við lönduðum núna fékkst í Berufjarðarál og á Öræfagrunni. Skipið er að fara út núna í dag en ég verð í fríi í næsta túr. Það verður ósköp indælt,“ segir Egill Guðni.

Bergey landaði fullfermi á Seyðisfirði sl. sunnudag og landaði síðan í Eyjum í gær eins og fyrr segir. Áhöfnin er nú í tveggja daga fríi.