Eyjarnar lönduðu tvisvar fullfermi í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonEyjarnar lönduðu tvisvar fullfermi í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu tvisvar fullfermi í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Bæði skipin komu til löndunar á mánudag og síðan aftur á fimmtudag. Þau héldu síðan á ný til veiða á föstudagskvöld. Heimasíðan heyrði hljóðið í Ragnari Waage Pálmasyni skipstjóra á Bergey. „ Það var hörkuveiði hjá báðum skipum í síðustu viku. Ég var þá að vísu í fríi en Snorri þór Guðmundsson var með skipið. Bæði skip voru að veiðum á Pétursey og aflinn var blandaður. Í fyrri túrnum var þetta ýsa, ufsi og þorskur en í seinni túrnum mest ýsa og ufsi. Í þessum túr fórum við austur að Ingólfshöfða en Vestmannaey hefur verið á Péturseynni áfram. Við lentum í bölvaðri brælu en höfum fengið góðan afla og erum á landleið. Hugsanlega munum við kasta á Péturseynni á landleiðinni til að fylla, við sjáum til,“ segir Ragnar Waage.