Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu báðar fullfermi í gær; Bergey í Vestmannaeyjum og Vestmannaey í Neskaupstað. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana sem báðir létu þokkalega vel af sér. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagðist vera býsna hress enda hefði verið fínn afli og fínt veður í veiðiferðinni. „Eftir löndun í Neskaupstað á dögunum fórum við út á svonefnda Gauraslóð og fengum þar blandaðan afla, mest þorsk og ýsu. Síðan var farið á Breiðdalsgrunn og fyllt þar. Við stoppum nú í tvo sólarhringa og förum út annað kvöld. Þá verður haldið á ný austur fyrir,“ segir Jón.

                Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagðist vera sáttur við gang mála og túrinn hefði einkennst af ágætis nuddi. „ Við byrjuðum á Ingólfshöfða og tókum þar þrjú hol. Síðan voru einnig þrjú hol tekin í Sláturhúsinu. Þá var haldið á Urðarhrygg suðvestur úr Hvalbaknum og þar var fyllt. Þetta var blandaður afli, mest ýsa. Við héldum út frá Neskaupstað strax eftir löndun og byrjuðum á að kasta á Glettinganesgrunni. Núna erum við inni í Skáp og það er áfram fínasta nudd en engin kraftveiði. Stefnt er að því að landa aftur í Neskaupstað á fimmtudaginn,“ segir Birgir Þór.

Vestmannaey VE að landa í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári Geirsson