Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, komu báðir með fullfermi til Vestmannaeyja í gærkvöldi. Aflinn fékkst í kringum Eyjarnar og var blandaður; ufsi, þorskur og ýsa. Veiðiferðin hjá skipunum tók innan við tvo sólarhringa. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að mjög vel hafi gengið að fiska og um sé að ræða stóran og góðan vertíðarfisk. „Það er fínasta stuð á mönnum en tíðin er dálítið rysjótt. Við förum venjulega út þegar lægir og förum síðan í land þegar brælir á ný. Það gekk vel að fiska hjá báðum skipum og í gær lágu þau hlið við hlið austan við Ystaklett í aðgerð áður en siglt var til hafnar,“ segir Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Birgi Þór og segir að fiskiríið sé býsna gott.“ Hér er mikið af þorski, töluvert af ufsa en það ber heldur minna á ýsunni. Meirihluti aflans hjá okkur fer til vinnslu innanlands en úr skipunum í gær fóru tveir gámar til útflutnings svo það er ekki allt lokað vegna veirunnar. Akkúrat núna er drullubræla en gert er ráð fyrir að bæði skip haldi til veiða í kvöld,“ segir Jón.