Gestir á tæknideginum höfðu mikinn áhuga á nýju FABLAB-smiðjunni. Ljósm. Smári GeirssonÁ tæknidegi fjölskyldunnar sl. laugardag var FABLAB Austurland formlega vígt og verður það að teljast tímamót í austfirskri mennta- og tæknisögu. FABLAB er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði sem gerir fólki á öllum aldri og með lágmarks tækniþekkingu kleift að hanna og smíða eigin frumgerðir. Hægt er að segja að í FABLAB-smiðjunni séu tæki og búnaður til að búa til næstum hvað sem er. Allur búnaður í smiðjunni er valinn með einfaldleika að leiðarljósi og í flestum tilvikum er unnt að gera hluti sem prentaðir eru frá venjulegu PDF-skjali.

Tækin í FABLAB-smiðjunni eru eftirtalin fyrir utan hefðbundnar tölvur: Fínfræsari, vínylskeri. laserskeri, stór fræsari, þrívíddarprentari og rafeindabúnaður af ýmsu tagi. 

Það hefur verið mikið átak að koma FABLAB-smiðjunni á fót. Verkmenntaskóli Austurlands hefur haft frumkvæði að verkefninu frá upphafi og hefur hann notið góðs fjárhagslegs stuðnings fyrirtækja. Síldarvinnslan hefur styrkt verkefnið myndarlega en auk þess hafa Samvinnufélag útgerðarmanna, Olíusamlag útvegsmanna, Alcoa-Fjarðaál og sveitarfélagið Fjarðabyggð styrkt það. Fasteignir ríkisins kostuðu nauðsynlegar breytingar á húsnæði svo unnt yrði að koma búnaðinum haganlega fyrir í verkkennsluhúsi Verkmenntaskólans. Að rekstri smiðjunnar munu koma Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Austurbrú auk Verkmenntaskóla Austurlands.

Vígsla FABLAB- smiðjunnar fór fram með tilheyrandi ræðuhöldum og borðaklippingu. Á borðann klipptu Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Elvar Jónsson skólameistari Verkmenntaskólans, Þorsteinn Sigfússon framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Í ræðu sem menntamálaráðherra hélt við vígsluna lagði hann áherslu á að stuðningur við FABLAB og aðrar slíkar nýjungar væru einhver besta fjárfesting sem unnt væri að ráðast í. Lét hann í ljós mikla ánægju með að tækni eins og þarna um ræðir væri að halda innreið sína á Austurlandi.

Það verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með notkun FABLAB-smiðjunnar í framtíðinni en auk nemenda Verkmenntaskólans verður nemendum í öðrum skólum í landhlutanum gert kleift að nýta aðstöðuna og eins mun almenningur fá greiðan aðgang að þeim tækniundrum sem felast í FABLAB.