Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.350 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst vestur af landinu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að um sé að ræða fallega síld, meðalvigt 270 grömm. Verið er að vinna aflann í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Hjörvar og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist. „Við fórum norður fyrir land og rákumst á síld á suðvesturhorni Látragrunns en það er kallað Wilson Corner. Þetta er töluvert norðar en skipin hafa verið að veiða. Það var þó nokkuð að sjá þarna og þarna fengum við aflann í þremur holum. Það er ekki unnt að kvarta undan fiskiríinu því við vorum einungis á miðunum í 22 tíma. Við urðum ekki varir við sýkinguna sem verið hefur í þessari síld undanfarin ár. Að loknum veiðum sigldum við heim suður fyrir land þannig að við hringuðum landið í túrnum. Það virðist vera mikið af Íslandssíld við landið. Hún er þarna fyrir vestan og síðan hefur hún einnig veiðst í bland við norsk-íslensku síldina austur af landinu að undanförnu. Það bendir allt til þess að stofninn sé í umtalsverðum vexti. Ég reikna með að við förum aftur vestur í næsta túr en nú er Beitir á leiðinni á miðin þar,“ segir Hjörvar.