Gullver NS kom til löndunar í heimahöfn á Seyðisfirði í morgun. Aflinn er 100 tonn, mest þorskur og ýsa. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að víða hafi verið farið í leit að fiski. „Þetta var langur túr eða sex dagar. Við byrjuðum norður á Langanesgrunni, síðan var farið á Digranesflak og Gerpisflak. Þá lá leiðin alveg suður á Fót og þar enduðum við. Veiðin var heldur slök en túrinn reddaðist þrjá síðustu dagana þarna suður frá. Þetta hefur verið svona tvö sl. haust; heldur lítill fiskur á Austfjarðamiðum. Nú spáir hann brælu og það verður vart haldið til veiða fyrr en á þriðjudagskvöld eða á miðvikudag,“ segir Rúnar.