Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ViðarssonUm þessar mundir er lítið eftir af makrílkvóta þeirra skipa sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar  í Neskaupstað. Því er nú farið að huga að síldveiðum af fullri alvöru. Síld hefur gjarnan verið meðafli hjá makrílveiðiskipunum og gera má ráð fyrir að makríll verði meðafli þegar öll áhersla verður lögð á síldveiðarnar. Norsk-íslenska síldin sem veiðst hefur að undanförnu hefur verið vel á sig komin og ætti að vera úrvalshráefni til vinnslu. Fyrir utan norsk íslensku síldina hefur nokkuð fengist af íslenskri sumargotssíld en hún er alls ekki eins eftirsóknarverð til vinnslu á þessum árstíma.

Bjarni Ólafsson AK er nú á landleið með um 500 tonna afla. Veiðisvæði skipsins var mun austar en það svæði sem makrílveiðarnar hafa helst farið fram á úti fyrir Austurlandi að undanförnu, en áformað var að Bjarni legði alla áherslu á að veiða síld. Aflinn er töluvert blandaður og þykir makrílhlutfallið vera of hátt. 

Beitir NK er nú á miðunum og er ætlunin að hann veiði síld. Mun hann reyna fyrir sér mun norðar en hann hefur veitt makríl að undanförnu.

Börkur NK er að landa í fiskiðjuverið tæplega 650 tonnum. Megnið af aflanum er makríll.