Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri sker 5 þúsund tonna tertuna. Ljósm: Ómar Bogason
Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 102 tonnum á Seyðisfirði sl. þriðjudag. Þar með náði afli skipsins fimm þúsund tonna markinu á þessu fiskveiðiári. Í tilefni þessara tímamóta var efnt til veislu um borð og gæddu menn sér á dýrindis tertu í borðsalnum. Skipið hefur aldrei fært á land jafn mikinn afla á einu ári en næstmesti ársaflinn er 4.400 tonn á árinu 2004.
Gullver kom aftur til löndunar í dag og er afli skipsins 106 tonn. Þar með var öðrum tímamótaáfanga náð því aflaverðmæti skipsins á fiskveiðiárinu náði þá einum milljarði.
Útgerð Gullvers hefur gengið afar vel að undanförnu en skipstjórar eru þeir Rúnar L. Gunnarsson og Þórhallur Jónsson. Jónas Jónsson var skipstjóri fyrstu fjóra mánuði fiskveiðiársins en Rúnar tók við af honum.
Gullver NS heldur til veiða sl. fimmtudag. Ljósm: Ómar Bogason
Þórhallur skipstjóri segir að búið sé að ganga afar vel á Gullver að undanförnu. „Staðreyndin er sú að þó að skipið sé gamalt þá er það ótrúlega gott – það hefur alltaf fiskast vel á það og það er ótrúlega gott í sjó. Þennan góða árangur má einnig þakka veiðarfærunum og frábærum köllum um borð. Síðustu ár höfum við einnig verið tiltölulega frjálsir varðandi það hvað við veiðum. Áður var það ekki svo,“ segir Þórhallur.
Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri tekur undir með Þórhalli. „Það hefur gengið afar vel hjá okkur að undanförnu. Auðvitað skýrist það fyrst og fremst af því að við höfum haft nægan kvóta og skipið er afar vel nýtt. Megnið af fiskveiðiárinu höfum við veitt á okkar hefðbundnu miðum út af Suðausturlandi en við fórum einnig fjóra túra á Selvogsbanka. Hér um borð eru auðvitað allir ánægðir með árangurinn,“ segir Rúnar.