Fimm úr áhöfn Bergeyjar VE hafa reynst smitaðir af Covid-19. Heimasíðan ræddi við Arnar Richardsson, rekstrarstjóra Bergs-Hugins, og spurði hvenær þetta hefði gerst. „Það voru áhafnarskipti í Neskaupstað á fimmtudaginn. Einn sem var að koma í land fór að finna fyrir einkennum á föstudag og var þá kominn til Reykjavíkur. Hann fór í hraðpróf og reyndist þá jákvæður. Það var endurtekið þrisvar sinnum og skilaði alltaf jákvæðri niðurstöðu. Síðan fór hann í PCR-próf og þá var niðurstaðan staðfest. Þegar þarna var komið sögu fór öll skipshöfnin í hraðpróf um borð og þá reyndist annar jákvæður. Landhelgisgæslunni var þegar tilkynnt um stöðuna og haldið til Vestmannaeyja. Sá þriðji bættist síðan við eftir hraðpróf á laugardagsmorgun. Í Vestmannaeyjum var tekið PCR-próf af áhöfninni og þegar niðurstaðan úr því lá fyrir bættust tveir í hópinn þannig að alls voru þá smitaðir orðnir fimm talsins. Þegar í land kom fór öll áhöfnin í sóttkví og í gær var allt skipið sótthreinsað hátt og lágt. Það er alveg óvíst hvenær Bergey heldur til veiða á ný,“ segir Arnar.