Landað í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Uppistaða aflans var þorskur. Bergur VE kom síðan til löndunar í Eyjum í gærkvöldi og hafði heimasíðan samband við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra og spurði um veiðiferðina. „Við fórum út síðdegis á föstudag og byrjuðum á að veiða karfa í Skerjadýpinu og ufsa á Litlahrygg við Tána. Það gekk þokkalega og við lönduðum um 65 tonnum í Þorlákshöfn á mánudaginn. Þaðan var haldið rakleiðis út á ný og nú var veitt á Péturseynni. Aflinn var blandaður en þarna var fínasta kropp. Þessi veiðiferð tók allt í allt um fimm sólarhringa en við vorum ekki nema þrjá sólarhringa á veiðum. Tveir sólarhringar fóru í stím og löndun. Þetta er býsna stíft en hér um borð er samhent og góð áhöfn sem stendur sig ávallt með miklum sóma. Strákarnir eiga mikið hrós skilið eftir svona túr,“ segir Ragnar.