Landað úr Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaey VE landaði fullfermi eða 79 tonnum í heimahöfn í Eyjum í gærkvöldi. Aflinn var mest ýsa og þorskur; 44 tonn af ýsu og 28 af þorski. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri lætur vel af veiðiferðinni. „Þetta var þokkalegasti vetrartúr. Á þessum árstíma skiptir veður ótrúlega miklu máli og við fengum gott veður í túrnum. Að þessu sinni vorum við fjóra sólarhringa að veiðum austur af landinu og síðan tók við sólarhringssigling heim til Eyja. Það var fínasta kropp allan túrinn. Við byrjuðum á Breiðdalsgrunni en færðum okkur svo norðar á Gerpisflak og á Skrúðsgrunn. Það fékkst stærri og betri ýsa norðar. Við förum út í fyrramálið og það er ekki ólíklegt að haldið verði austur fyrir land á ný,“ segir Birgir Þór.