Polar Ammassak. Ljósm. Jón Einar Marteinsson

Grænlensku skipin Polar Ammassak og Polar Amaroq gerðu það gott á loðnumiðunum norðaustur af landinu í gær. Polar Amaroq fékk um 600 tonn í holi gærdagsins og hélt að því loknu til Seyðisfjarðar með 1.300 tonna afla. Polar Ammassak fékk 700 tonn í gær og heyrði heimasíðan í Geir Zoëga skipstjóra nú laust fyrir hádegi. „Í gær fengum við 700 tonn eftir að hafa togað í eina tíu tíma og það er með því besta sem fengist hefur frá því að veiðar hófust núna. Við toguðum síðan í nótt og vorum að dæla um 150 tonnum, en minna hefur fengist á nóttunni en á daginn. Við erum að kynnast nýju skipi en holið í gærdag var fyrsta holið sem við tökum á þessu skipi. Ég var reyndar með þetta skip í sjö mánuði árið 2013 og það hét þá Polar Amaroq. Nú er hins vegar búið að gera grundvallarbreytingar á skipinu frá þeim tíma. Það er til dæmis kominn dælubúnaður á skut, tromlur hafa verið stækkaðar, það er kominn nýr skiljari og nýtt vacuumkerfi og öll tæki í brúnni hafa verið endurnýjuð. Þetta er einfaldlega hörkuskip og það er glæsilegt að ná góðu fyrsta holi eins og holinu í gær. Það versta er að núna er að bræla og reyndar komin haugabræla. Ég á ekki von á að það verði veiðiveður í dag en veðrið ætti að vera gengið niður á morgun,“ segir Geir.