
Eftir að brælunni lauk á kolmunnamiðunum s.l. miðvikudag hefur verið fínasta veiði. Börkur NK kom til Seyðisfjarðar klukkan eitt í nótt með fullfermi eða 1.800 tonn og Beitir NK er á landleið einnig með fullfermi eða 2.100 tonn. Þegar rætt var við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti um klukkan 10 í morgun sagði hann að þeir væru á leið til Seyðisfjarðar og ættu eftir 60-80 mílur í Norðfjarðarhorn. „Við verðum á Seyðisfirði í kvöld“, sagði Hálfdan,“það er búið að vera vitlaust veður á leiðinni en það er að ganga niður núna“. Hálfdan segir að eftir að brælunni á miðunum lauk sl. miðvikudag hafi almennt verið góð veiði hjá kolmunnaskipunum. Flest skipanna séu að fá 300-500 tonn í holi en misjafnt sé hve lengi er togað. Stystu holin eru oft um 4 tímar en stundum er togað í allt að 10 tíma. Veiðisvæðið er hið sama og verið hefur að undanförnu; um 90 mílur suður af Suðurey. Fjarlægðin frá veiðisvæðinu í Norðfjarðarhorn er um 350 mílur og eru skipin um einn og hálfan sólarhring að sigla frá miðunum til Austfjarðahafna í góðu veðri.
Í Neskaupstað er búið að taka á móti um 8.300 tonnum af kolmunna til mjöl- og lýsisvinnslu ef talinn er með farmur Bjarna Ólafssonar AK sem nú er að landa. Þá hefur einnig verið landað liðlega 1.450 tonnum af frystum kolmunna í Neskaupstað.