Landað var úr Gullver NS á Seyðisfirði í morgun. Ljósm. Ómar Bogason

Gullver NS landaði á Seyðisfirði í morgun að lokinni stuttri veiðiferð. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra þegar í land var komið og spurði fyrst um aflabrögð. „Þetta var stuttur túr og við vorum einungis tvo og hálfan dag að veiðum. Aflinn var 62 tonn, langmest fínasta ýsa. Við byrjuðum á að leita að ufsa og karfa á Papagrunni með afar litlum árangri. Þá var haldið vestur á Mýragrunn og þar fengum við ýsuna. Veður var mjög gott allan túrinn og ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum. Gullver mun væntanlega halda til veiða á ný á laugardaginn,“ segir Hjálmar Ólafur.