Ísfisktogararnir Gullver NS og Bergey VE hafa verið að fiska vel að undanförnu.
Gullver kom til löndunar á Seyðisfirði í morgun með 83 tonn og sló heimasíðan á þráðinn til Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra sem lét vel af sér. “Aflinn fékkst á tveimur sólarhringum á Digranesflakinu. Það var bara fínasta fiskirí og það var nánast eingöngu um þorsk að ræða. Þetta er fyrsti túrinn okkar á nýju ári en skipið hefur verið frá um tíma vegna upptektar á gír. Það eina sem skapraunaði okkur í túrnum var veðurlagið. Það voru umhleypingar og veðrið aldrei eins. Það var logn einn klukkutímann og rok þann næsta, en þrátt fyrir það gekk allt vel. Við gerum ráð fyrir að halda til veiða á ný í kvöld og það er létt yfir mannskapnum,” segir Steinþór.
Bergey hélt til veiða aðfaranótt föstudags og landaði fullfermi í heimahöfn í Vestmannaeyjum 40 tímum síðar. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst hvort þetta væri ekki óvenju stutt veiðiferð. “Jú, hún var í styttra lagi eða 40 tímar höfn í höfn. Það fiskaðist vel. Við fengum þorsk á Víkinni og ufsa í Reynisdýpinu. Veður var hins vegar heldur leiðinlegt: Þrálátur vestan sperringur. Við héldum út strax eftir löndun og erum nú í Skeiðarárdýpinu að eltast við ýsu og lýsu. Ég reikna með að komið verði til löndunar á miðvikudagskvöld eða fimmtudagsmorgun,” segir Jón.