Gullver NS kom til löndunar í gær. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 85 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði í gær. Aflinn var mest þorskur en einnig ufsi og ýsa. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði hvernig túrinn hefði gengið fyrir sig. „Við byrjuðum í Berufjarðarálnum og á Papagrunni. Þar var verið í ufsa og ýsu. Við tókum eitt hol í Skápnum en þar var ekkert að hafa. Síðan var haldið á Brettingsstaði en þar hafði vrið hörkuveiði. Tvö eða þrjú fyrstu holin þar voru þokkaleg en síðan datt veiðin alveg niður. Þá var haldið á Digranesflak og þar enduðum við. Það fékkst fínasti fiskur bæði á Brettingsstöðum og á Digranesflaki. Um hádegi á þriðjudag var komið skítaveður en annars var kaldaskítur mest allan túrinn. Nú eru þrír hefðbundnir túrar framundan hjá Gullver en síðan kemur röðin að ralli í byrjun marsmánaðar,“ segir Þórhallur.

Gullver mun halda aftur til veiða á föstudagskvöld.