Finnbogi Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, lést sl. fimmtudag eftir skammvinn veikindi. Finnbogi gegndi starfi framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar á árunum 1986-1999. Þegar hann hóf störf við fyrirtækið átti það í miklum erfiðleikum en þegar hann hvarf á braut hafði það eflst mikið og stóð ágætlega. Finnbogi var farsæll stjórnandi, tók á öllum málum af þekkingu og festu og ávann sér mikillar virðingar. Eftir að hann fluttist frá Neskaupstað fylgdist hann vel með starfsemi Síldarvinnslunnar og framgangi byggðarlagsins og ekkert fór á milli mála að hugur hans dvaldi langdvölum eystra.
Finnbogi fæddist á Akureyri 18. janúar árið 1950. Hann var menntaður í eðlisverkfræði og rekstrarhagfræði og sinnti fjölmörgum störfum á lífsleiðinni. Eiginkona Finnboga, Sveinborg Helga Sveinsdóttir hjúkrunarfræðingur, lést árið 2004 en þau eignuðust tvær dætur, Esther og Sigríði Rögnu. Sambýliskona Finnboga frá árinu 2005 var Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra.
Síldarvinnslan vottar öllum aðstandendum Finnboga innilega samúð við fráfall hans. Minningin um góðan mann mun lifa.