Finnbogi Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, lést í Vancouver í Kanada þann níunda september síðastliðinn og fer útför hans fram í dag. Finnbogi tók við starfi framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar á erfiðum tímum árið 1986 og gegndi starfinu til ársins 1999. Stjórnarformaður fyrirtækisins allan starfstíma Finnboga var Kristinn V. Jóhannsson og ræddi heimasíðan við hann um feril Finnboga í framkvæmdastjórastarfinu.

-Hvernig kom það til að Finnbogi var ráðinn til Síldarvinnslunnar?

Um það leyti sem ég tók við stjórnarformennsku hjá Síldarvinnslunni árið 1984 lét Ólafur Gunnarsson framkvæmdastjóri af störfum. Þá var haft samband við Finnboga og kannað hvort hann væri reiðubúinn að taka við starfinu. Svo reyndist ekki vera. Hann var fastur í störfum norður í Eyjafirði og á kafi í verkefnum sem hann gat ekki hlaupið frá. Úr varð að Guðjón Smári Agnarsson tók við framkvæmdastjórastarfinu. Þegar Guðjón Smári lét síðan af starfinu árið 1986 var leitað til Finnboga á ný og þá var hann tilbúinn. Finnbogi ræddi við Sveinborgu Sveinsdóttur, eiginkonu sína, og féllst hún á að flytja austur og búa þar í ein sjö ár. Árin urðu reyndar þrettán, enda líkaði þeim lífið afar vel í Neskaupstað

-Fjárhagsleg staða Síldarvinnslunnar var slæm þegar Finnbogi kom til starfa. Varla hefur það verið heillandi verkefni að taka við framkvæmdastjórastarfinu?

Nei, honum var gerð grein fyrir stöðunni og Finnbogi var baráttumaður. Hann var tilbúinn að takast á við það ögrandi verkefni að koma rekstrinum á réttan kjöl. Hin slæma fjárhagsstaða fyrirtækisins átti sér tvær meginorsakir. Annars vegar glímdi það við afleiðingar snjóflóðanna 1974 en það tjón fékkst aldrei að fullu bætt þrátt fyrir fögur fyrirheit. Hins vegar höfðu verið erfið ár í sjávarútvegi, léleg aflabrögð í bolfiski og loðnuveiðibann.

Örfáum dögum eftir að Finnbogi kom austur birtist frétt í Morgunblaðinu sem fjallaði um afar slæma stöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Sérstaklega var getið um sex fyrirtæki sem væru á barmi gjaldþrots og var Síldarvinnslan á meðal þeirra. Reyndar var sagt í fréttinni að Síldarvinnslan stæði verst þessara fyrirtækja. Það var ljóst að þessi fréttaflutningur yrði ekki til að auðvelda hinum nýja framkvæmdastjóra lífið, en hann tók þessu með einstöku jafnaðargeði og sagði að það væri öllum ljóst að nauðsynlegt væri að bretta upp ermar. Það má geta þess hér að fimm af þessum sex fyrirtækjum heyrðu brátt sögunni til, Síldarvinnslan var það eina sem eftir stóð.

Frá afhendingu gæðaskjaldar Coldwater árið 1991. Frystihús Síldarvinnslunnar hlaut viðurkenninguna fyrir gæðaframleiðslu. Á myndinni eru, talið frá vinstri: Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri, Jóna Ármann, Ásdís V. Pálsdóttir yfirverkstjóri og Magnús Magnússon framleiðslustjóri. Ljósm. Haraldur Bjarnason

Fyrstu mánuðir Finnboga í starfi framkvæmdastjóra voru einstaklega erfiðir. Í hverri viku átti fyrirtækið ekki fyrir launum þá vikuna. Því þurfti framkvæmdastjórinn að ganga á fund útibússtjóra Landsbankans í hverri viku og sannfæra hann um að fyrirtækið væri þrátt fyrir allt á réttri leið og það myndi geta borgað síðar. Það brást aldrei að í hverri viku fengu starfsmennirnir, sem voru 400 talsins, launin sín.

Á þessum árum var nánast útilokað að fá lán til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækis eins og Síldarvinnslunnar. Það voru helst möguleikar að fá slík lán hjá Byggðastofnun, en stofnunin gerði hins vegar kröfur sem engin leið var að fallast á. Meðal annars setti stofnunin það skilyrði fyrir slíku láni að fyrirtækið seldi tvö af fimm skipum sínum. Því skilyrði var umsvifalaust hafnað. Loks fékkst þó dálítið lán sem nam 5-6% af heildarskuldum fyrirtækisins. Þetta lán nýttist ótrúlega vel og fyrstu skrefin voru stigin í jákvæða átt.

-Það var barist fyrir tilveru félagsins, en hvenær fór að birta til?

Já, það voru brattar brekkur sem þurfti að klífa og það mæddi mikið á Finnboga. Allur níundi áratugurinn var Síldarvinnslunni afar erfiður. Hann einkenndist af varnarbaráttu og í rauninni var þarna um að ræða baráttu fyrir tilveru fyrirtækisins. Það var fyrst upp úr 1990 sem tók að birta til. Þá var loksins unnt að snúa vörn í sókn og fara að hyggja að uppbyggingu. Finnbogi áttaði sig strax á eðli kvótakerfisins og vann þrotlaust að því að hámarka verðmæti þeirra aflaheimilda sem til ráðstöfunar voru hverju sinni og það gerði hann í samvinnu við marga innan fyrirtækisins.

Mikill áhugi var fyrir því að byggja fyrirtækið upp með markvissum hætti en bankarnir voru ekki ýkja fúsir til að lána fjármagn til slíkrar uppbyggingar. Að loknum miklum umræðum stóðu menn frammi fyrir tveimur kostum. Fyrri kosturinn var að reka fyrirtækið eins og það var og treysta á að reksturinn skilaði einhverju til uppbyggingar. Þessi leið fól í sér að uppbyggingin yrði hæg. Hinn kosturinn var að afla fjármagns utan frá og byggja hratt upp. Mönnum var ljóst að slíkt fjármagn fengist ekki að láni og því yrði ekki um annað að ræða en bjóða út nýtt hlutafé. Ákveðið var að fara síðari leiðina og bjóða út hlutafé að nafnvirði 40 milljónir króna. Þá var samþykkt að viðskipti með bréf fyrirtækisins færu fram á Opna tilboðsmarkaðnum. Þegar hér var komið sögu var farið að bjóða út fjármögnun fyrirtækisins sem var alger nýlunda.

Þetta fól í sér að nýr kafli í sögu Síldarvinnslunnar var hafinn og Finnbogi hélt utan um það sem var að gerast styrkri hendi. Uppbyggingin hófst af krafti og þar skipti endurnýjun fiskimjölsverksmiðjanna og skipanna ásamt byggingu nýs fiskiðjuvers mestu máli. Nokkru fyrir aldamótin var farið í mikla stefnumótunarvinnu og leiddi Finnbogi hana. Niðurstaðan varð sú að fyrirtækið skyldi leggja höfuðáherslu á uppsjávarveiðar og – vinnslu og markmiðið var að það yrði fremst fyrirtækja á því sviði á landinu. Stefnan var metnaðarfull og strax var hafist handa við að framfylgja henni. Meðal annars var byrjað á að skipta út bolfiskheimildum fyrir uppsjávarheimildir.

-Hvað einkenndi Finnboga sem stjórnanda?

Það var einstaklega gott að starfa með Finnboga. Hann var afar duglegur og laginn við að koma málum fram. Hann lagði áherslu á að ráðfæra sig við samstarfsfólk sitt. Við vorum oft í daglegu sambandi og samstarf hans við alla stjórn fyrirtækisins var til fyrirmyndar. Það sem einkenndi störf hans umfram annað að mínu mati var þolinmæði og þrautseigja. Hann gafst aldrei upp þegar hann hóf að sinna verkefni þó stundum gustaði á móti. Þá gekk hann skipulega til verks og setti sjálfum sér skýr og metnaðarfull markmið. Finnbogi Jónsson var eftirminnilegur maður og á Síldarvinnslan honum mikið að þakka.

Það er afar sorglegt að Finnbogi skuli fallinn frá og hans er sárt saknað. Hann var ávallt í góðum tengslum við Síldarvinnsluna og Neskaupstað og bar hag fyrirtækisins og samfélagsins fyrir brjósti. Það eru margir hér eystra sem sakna þessa góða drengs og samúðarkveðjur til aðstandenda streyma héðan að austan.