Ísfisktogarinn Vestmannaey VE er nú að veiðum í Háfadýpinu og sló heimasíðan á þráðinn til Egils Guðna Guðnasonar skipstjóra. Egill lét vel af sér. „Við erum hér í Háfadýpinu að eltast við djúpkarfa og það gengur bara þokkalega. Þetta er ekki svo slæmt. Við lönduðum fullfermi í gær í Eyjum og uppistaða aflans í þeim túr var þorskur og ýsa. Við fórum afar víða í túrnum sem var þó ekki lengri en rúmir þrír sólarhringar. Við veiddum á Síðugrunni, Öræfagrunni, Mýragrunni, á Ingólfshöfða og á Vík og enduðum síðan á Péturseynni. Það fiskaðist bara vel á flestum stöðum en síst þó á Síðugrunni og Öræfagrunni. Hér um borð eru allir brattir og við kvörtum ekki neitt,“ segir Egill Guðni.