Bergey VE á Péturseynni. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað vel að undanförnu. Vestmannaey kom með fullfermi til löndunar í Eyjum í gærkvöldi og í morgun kom Bergey í kjölfar hennar. Afli skipanna var blandaður; þorskur, ýsa, ufsi, karfi og langa. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að ekki þurfi langt að sækja. „Við byrjuðum í djúpkarfa í Grindavíkurdýpinu en síðan vorum við á Pétursey í þorski, ýsu og ufsa. Það var bara fínasti afli allan túrinn,“ segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni og segir vel aflast. „Við vorum á Pétursey og þar fékkst blandaður afli. Það er síld þarna á slóðinni og fiskurinn er að gassast í henni. Við fórum líka í Reynisdýpið og fengum karfa þar. Það er þægilegt að þurfa ekki að sækja lengra og veiðin hefur verið kröftug þarna að undanförnu eins og oft áður á þessum ártíma,“ segir Birgir Þór.

Bæði skip munu halda til veiða á ný strax að löndun lokinni.