Ísaður bolfiskur settur í flutningabíl á höfninni í Neskaupstað.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ nýliðnum septembermánuði var skipað út rúmum 10.000 tonnum af frystum afurðum úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hér er fyrst og fremst um að ræða makríl og síld. Alls fóru 7.500 tonn beint í skip en um 2.500 tonn fóru í gáma sem ekið var með yfir Oddsskarð til útskipunar á Reyðarfirði. Þetta þýðir að rúmlega 100 gámar af frystum afurðum hafa verið fluttir yfir Oddsskarð í mánuðinum og ferðir flutningabílanna yfir Skarðið fram og til baka vegna þessara flutninga hafa verið á þriðja hundrað.

Fyrir utan þetta hefur mikið af ísuðum bolfiski verið flutt með flutningabílum yfir Skarðið í mánuðinum og hefur sá fiskur bæði komið frá Bjarti NK og eins smærri bátum, ekki síst línubátum sem róið hafa frá Neskaupstað að undanförnu og oft aflað vel. Ferðirnar með ferskan fisk voru um 70 talsins og fóru flutningabílarnir vegna þeirra um 140 sinnum  yfir Skarð og í gegnum Oddsskarðsgöng . Loks voru farnar 10 ferðir með fiskimjöl yfir Skarðið í mánuðinum og það gera 20 ferðir þeirra bíla sem sinntu þeim flutningum.

Niðurstaðan er skýr: Alls fóru flutningabílar frá Eimskip-Flytjanda og Samkipum-Landflutningum um 360 ferðir yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng vegna flutninga á fiski og fiskafurðum frá Neskaupstað í septembermánuði síðastliðnum. Vegna þessara flutninga eingöngu fóru því slíkir bílar 12 ferðir á dag yfir Skarðið  hvern einasta dag mánaðarins.

Fyrir utan flutninga á ferskum fiski og fiskafurðum eru aðrir vöruflutningar yfir Skarðið verulegir en um þá verður ekki fjallað hér. Eins verður ekkert fjallað hér um mikla mannflutninga sem hafa farið mjög vaxandi með tilkomu álvers Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði og aukinnar starfsemi Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.

Haft var samband við Rúnar Gunnarsson þjónustustjóra hjá Eimskip á Austurlandi til að fá staðfestingu á framangreindum upplýsingum. Rúnar staðfesti þær tölur sem hér hafa komið fram og sagði síðan eftirfarandi um flutninga yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng: „ Flutningar yfir Skarðið eru gífurlega miklir og í því sambandi vega flutningar með fisk og sjávarafurðir þungt. Ekið er upp í rúmlega 600 metra hæð og síðan í gegnum Oddsskarðsgöng sem henta afar illa fyrir umferð sem þessa. Þessi akstur reynir mikið á bílana og gerir það að verkum að þeir gefa sig fljótt; mótorar og gírkassar bila gjarnan. Til að mæta þessu hafa verið keyptir dýrari bílar sem henta betur í flutninga af þessu tagi en það dugar vart til. Þá þurfa bílarnir sem flytja gáma að vera með sérbyggða vagna undir gámana svo þeir komist í gegnum göngin, en þau eru þröng, dimm og einbreið með útskotum auk þess sem blindhæð er í þeim. Þá er mikilvægt að allir geri sér ljóst að hin mikla umferð flutningabíla veldur truflun á annarri umferð og mörgum finnst vægast sagt óþægilegt að mæta þessum þungu stóru bílum á fjallveginum eða þá í göngunum. Tíðarfar skiptir afar miklu máli hvað varðar þessa flutninga; flutningar um svona fjallveg og göng er ávallt hættulegir en hættan margfaldast þegar veður er slæmt og hálka mikil.

Við sem sinnum þessum flutningum fögnum gríðarlega þeim tímamótum að nú skuli hafnar framkvæmdir við ný Norðfjarðargöng. Ég held að sé varla unnt að finna þarfara verkefni á sviði samgöngumála á landinu“.