Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirFiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur tekið á móti tæplega 20 þúsund tonnum af makríl og síld á yfirstandandi vertíð. Þar af eru rúmlega 11 þúsund tonn makríll. Beitir NK er nú að landa í fiskiðjuverið til vinnslu en afli hans er 370 tonn, þar af 275 tonn makríll. Börkur NK kom inn í nótt vegna óhagstæðs veiðiveðurs með 240 tonn og er afli hans til helminga makríll og síld. Hann bíður löndunar.

Alls hafa vinnsluskip landað tæplega 14.500 tonnum af makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar á vertíðinni. Kristina EA kom til hafnar í dag og er að landa fullfermi af frystum afurðum eða rúmlega tvö þúsund tonnum.