Freysteinn BjarnasonÁ hinu háa Alþingi Íslendinga hefur farið fram hin furðulegasta umræða um þá aukningu á aflamarki sem sjávarútvegsráðherra gaf út nú fyrir skemmstu. Þar hafa ónefndir þingmenn hamast við að mála skrattann á vegginn og finna ákvörðun ráðherra allt til foráttu. Þeir telja það auðvirðilegt kosningabragð að bæta hag útgerðar, sjómanna, fiskvinnslu og þjóðarbúsins sem nemur háum fjárhæðum eða um 2,5 milljörðum króna.

Þessir menn blása nú á fiskifræði sjómannsins en mæra Hafrannsóknarstofnun. Áður hafa þessir sömu menn lýst öndverðri skoðun, gagnrýnt Hafró, en talið að ekki væri tekið tillit til þekkingar sjómanna. Án allra fullyrðinga um hver hefur rétt fyrir sér, skipasmíðameistarinn frá Akranesi, þingflokksformaðurinn að vestan, Eyjapeyinn sem vill lengja skötuselsnet karls föður síns, eða ráðherrann sjálfur, langar mig að leggja eina ufsasögu að austan í sjóð fiskifræði sjómannsins og hún leggst ráðherramegin.

Nú í morgun voru báðir togarar Síldarvinnslunnar að veiðum á Austfjarðamiðum og hugðust ná sér í nokkur ufsatonn, en reynt er að blanda afla hverrar veiðiferðar þannig að aflaheimildirnar gangi upp á ársvísu. Skipstjórarnir hafa gjarnan komið við á Papagrunni annað hvort þegar þeir eru á leið suður í karfa eða þegar þeir eru á leið til baka. Oftast hefur dugað að taka eitt hol til að ná leyfilegum afla.

Í morgun, eins og fyrr sagði, köstuðu bæði skipin á Papagrunni og toguðu í 10 mínútur annar þeirra, hann Barði NK, og Bjartur NK í 15 mínútur. Sá fyrrnefndi fékk 20 tonn en sá seinni 25 tonn. Skipstjórinn á Bjarti sagði mér að það væri eins og botninn lyfti sér á stóru svæði á SV horni Papagrunns og mikill ufsi væri í öllum útkanti Stokksnesgrunns. Þetta er vísbending, því svona er ástandið búið að vera meira og minna í haust og vetur, en engin fullyrðing.

Kannski eru þessi sterku mótmæli, við auknum aflaheimildum, líka sprottnar af ótta nokkurs fjölda alþingismanna sem krefjast mótvægisaðgerða gegn bættum þjóðarhag, eins og fram hefur komið, vegna Kárahnjúka og álverksmiðju í Reyðarfirði.

Freysteinn Bjarnason,
framkvæmdastjóri útgerðar SVN