Nú hafa fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tekið á móti 200.000 tonnum af hráefni það sem af er árinu eða nákvæmlega 201.674 tonnum. Allt árið í fyrra tóku verksmiðjurnar á móti 196.000 tonnum. Í fyrra tók verksmiðjan í Neskaupstað á móti 118.000 tonnum, verksmiðjan á Seyðisfirði 59.400 tonnum og verksmiðjan í Helguvík 18.700 tonnum.
Það sem af er þessu ári hefur verksmiðjan í Neskaupstað tekið á móti 145.460 tonnum. Þar af er kolmunni 72.975 tonn, loðna 46.838 tonn, fráflokkaður makríll og makrílafskurður 7.443 tonn og fráflokkuð síld og síldarafskurður 15.993 tonn.
Verksmiðjan á Seyðisfirði hefur tekið á móti 46.157 tonnum í ár og er þar nær eingöngu um kolmunna að ræða.
Í ár hefur Helguvíkurverksmiðjan tekið á móti 10.057 tonnum, þar af er loðna 6.941 tonn og makríll 2.812 tonn.
Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðjanna, segir að vinnslan í verksmiðjunum hafi gengið mjög vel í ár. „Verksmiðjan í Neskaupstað fær mest hráefni ekki síst vegna þess að hún tekur við afskurði og því sem flokkast frá í fiskiðjuverinu þar og eins frá vinnsluskipum. Þá berst þangað að sjálfsögðu mikill kolmunni. Fyrir Seyðisfjörð er þetta ár tiltölulega gott miðað við það að þangað barst engin loðna, en kolmunninn sem þangað kom var unninn frá miðjum mars og til maíloka. Hvað Helguvíkurverksmiðjuna varðar þá barst þangað loðna undir lok vertíðar og tengist það hrognavinnslu. Þá barst þangað einnig makrílafskurður frá vinnsluskipum og þá helst frá grænlenska skipinu Polar Amaroq,“ segir Gunnar.