Börkur NK að veiðum. Ljósm. Geir ZoëgaFiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað hafa tekið á móti 35.400 tonnum af kolmunna það sem af er vertíðinni. Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti rúmlega 23.000 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 12.400 tonnum. Vinnslan hefur gengið vel en hún hefur þó ekki verið samfelld. Til dæmis var vinnsluhlé á Seyðisfirði í gær og beðið eftir hráefni.

Auk þess kolmunna sem landað hefur verið í fiskimjölsverksmiðjurnar hafa vinnsluskip landað nokkru af frystum afurðum í frystigeymslurnar í Neskaupstað. 

Kolmunnaveiðin er þokkalega góð í færeysku lögsögunni rétt eins og verið hefur. Ágætur afli fæst á daginn en minna á nóttunni. Skipin toga í 7-15 tíma, að sögn Ólafs Gunnars Guðnasonar stýrimanns á Berki og eru þau að fá um og yfir 500 tonna hol á daginn þegar best lætur. Kolmunninn hefur haldið sig á svipuðum slóðum síðustu dagana og hafa Síldarvinnsluskipin verið að veiðum vestan í svokölluðum Munkagrunni. Börkur er á landleið með fullfermi þegar þetta er ritað og Beitir er kominn með góðan afla. Birtingur tók 450 tonna hol í gærkvöldi en ekki hefur frést af honum í dag.