Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonSamkvæmt samantekt Fiskifrétta tóku fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á móti 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013 en það er um 33% af því heildarmagni sem fór til vinnslu á mjöli og lýsi. Verksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tók á móti langmestu hráefni allra verksmiðja á landinu eða um 123 þúsund tonnum sem er um 20% af heildinni. Verksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði tók á móti rúmlega 44 þúsund tonnum og verksmiðjan í Helguvík rúmlega 39 þúsund tonnum. Loðna var mikilvægasta hráefni fiskimjölsverksmiðja á landinu á árinu 2013. Rúmlega helmingi loðnunnar var landað beint í verksmiðjurnar en tæplega helmingur var loðna sem flokkaðist frá við manneldisvinnslu. Hverfandi hluta norsk-íslensku síldarinnar, íslensku síldarinnar og makrílsins var landað beint í verksmiðjur þar sem þessar tegundir eru nánast að öllu leyti nýttar til manneldisvinnslu. Öðru máli gegnir um kolmunnann en hann fer nánast allur beint til mjöl- og lýsisvinnslu.