Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti allmiklu magni af hráefni á árinu sem var að líða og verð á afurðum þeirra var þokkalegt. Samtals tóku verksmiðjurnar þrjár, í Neskaupstað, Helguvík og á Seyðisfirði, á móti 225.383 tonnum af hráefni á árinu. Til samanburðar skal þess getið að á árinu 2017 tóku þær á móti 196.697 tonnum, 131.460 tonnum á árinu 2016 og 259.394 tonnum árið 2015. Aukningin á mótteknu hráefni á milli áranna 2017 og 2018 stafar fyrst og fremst af auknum kolmunnaveiðum en eins ræðst móttekið hráefni verksmiðjanna á hverju ári mjög af því hve mikil loðna er veidd.
Hér verða birtar upplýsingar um móttekið hráefni hverrar verksmiðju á árinu 2018 og einnig upplýsingar um framleiðslu þeirra á mjöli og lýsi á árinu:
Móttekið magn hráefnis | Framleitt mjöl | Framleitt lýsi | |
Neskaupstaður | 166.896 | 34.560 | 10.695 |
Seyðisfjörður | 46.158 | 9.839 | 155 |
Helguvík | 12.329 | 2.359 | 1.085 |
Til samanburðar skal þess getið að á árinu 2017 tók verksmiðjan í Neskaupstað á móti 118.523 tonnum af hráefni, verksmiðjan á Seyðisfirði 59.420 tonnum og verksmiðjan í Helguvík 18.754 tonnum.