Frá Norðfjarðarhöfn í gær. Skip að lesta loðnumjöl og grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq að landa í fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Smári Geirsson

Hin risastóra yfirstandandi loðnuvertíð gerir það að verkum að fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar fá til sín mikið hráefni. Heimasíðan ræddi við Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóra í Neskaupstað, og Eggert Ólaf Einarsson, verksmiðjustjóra á Seyðisfirði, og spurði þá hvernig vertíðin hefði gengið. Hafþór segir að vertíðin hefði gengið vel. „Þetta hefur í reynd gengið eins og í sögu. Við vorum til dæmis alveg samfellt í vinnslu allan febrúarmánuð, það kom aldrei hlé. Hráefnið hefur verið alveg frábært og við höfum tekið á móti 66.000 tonnum frá því að vertíðin hófst og þar af fengum við um 12.000 tonn fyrir áramót. Hráefnið hefur borist jafnt og þétt og ekki safnast upp í hráefnisgeymslum, en við fáum bæði hráefni beint frá veiðiskipunum og frá fiskiðjuverinu. Allt sem flokkast frá við manneldisvinnsluna kemur til okkar. Skipin kæla aflann vel þannig að hráefnið er unnið eins ferskt og gott og hugsanlegt er. Þá hefur loðnan gefið mikið lýsi og það er mjög jákvætt. Útskipanir á afurðum hafa verið reglubundnar og það er búið að skipa út 7.500 tonnum af mjöli frá Neskaupstað það sem af er ári. Einnig er verið að skipa út 2.500 tonnum þessa dagana. Afurðir okkar fara allar í laxeldið og eru seldar til Skotlands, Noregs, Danmerkur, Færeyja og Spánar. Það verður að segjast að fyrir fiskimjölsverksmiðjurnar hefur þessi loðnuvertíð verið afar góð,“ segir Hafþór.

Eggert Ólafur tekur undir með Hafþóri og segir að alla vertíðina hafi verið unnið ferskt og gott hráefni í verksmiðjunni á Seyðisfirði. „Við erum búnir að taka á móti um 68.000 tonnum af hráefni til vinnslu á vertíðinni og vinnslan hefur gengið vel. Það var tekið á móti 10.000 tonnum fyrir áramót og höfum tekið á móti um 58.000 tonnum frá áramótum. Við höfum alltaf verið að vinna ferskt hráefni og það hefur aldrei beðið mikið í hráefnisgeymslum. Reyndar höfum við tómkeyrt verksmiðjuna fjórum sinnum á vertíðinni en þau hlé hafa öll verið örstutt og nýst vel. Þetta er besta vertíð verksmiðjunnar hér í langan tíma. Verksmiðjan tók á móti 77.600 tonnum af loðnu árið 2002 og 50.000 tonnum árið 2004 en öll önnur ár undanfarna tvo áratugi hefur móttekið hráefni verið minna og allt niður í ekki neitt. Hér eru menn afar ánægðir með vertíðina og henni er alls ekki lokið,“ segir Eggert Ólafur.

Á framansögðu sést að fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar hafa samtals tekið á móti 134.000 tonnum af loðnu það sem af er vertíðinni.

Það var góð loðnuveiði í Faxaflóa og Breiðafirði í gær og verksmiðjurnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði eiga von á meira hráefni. Börkur NK er á leið til Seyðisfjarðar með 3.200 tonn og í kjölfar hans mun Bjarni Ólafsson AK koma þangað með 1.900 tonn. Vilhelm Þorsteinsson EA er á leið til Neskaupstaðar með fullfermi. Barði NK mun landa fullfermi á Vopnafirði. Beitir NK er á miðunum og samkvæmt upplýsingum frá Beitismönnum er loðnan byrjuð að losa pokann þannig að hrognavinnsla fer að hefjast af fullum krafti.