Vinnsla er hafin í fiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla er hafin í fiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hófst í fiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði í gær en þar hefur engin vinnsla farið fram frá því um miðjan desember vegna sjómannaverkfallsins. Byrjað var að vinna fisk af Vestmannaey VE og síðan kom fiskur af Barða NK sem landaði í gær. Þá er gert ráð fyrir að Gullver NS landi á Seyðisfirði á morgun.
 
Ómar Bogason framleiðslustjóri í fiskvinnslunni sagði að það væri einkar ánægjulegt að sjá fólk koma til vinnu á ný. „Það var létt yfir fólki þegar það kom til starfa og allir virtust afar fegnir að þessu langa verkfalli væri lokið. Hér var byrjað með hefðbundnum hætti og fyrstu fersku hnakkarnir fóru með Norrænu í gær,“ sagði Ómar.