Vinna við endurbætur á fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hafa staðið yfir í á þriðja ár. Framkvæmdirnar hafa að miklu leyti verið við húsið utanvert en eins hafa verið gerðar verulegar umbætur á því að innan. Nú eru framkvæmdir við húsið að utan á lokastigi og það hefur svo sannarlega tekið miklum breytingum. Adolf Guðmundsson rekstrarstjóri á Seyðisfirði segir að nú sé fiskvinnslustöðin orðin bæjarprýði. „Þetta er eins og nýtt hús. Húsið er einfaldlega orðið til fyrirmyndar. Nú er framkvæmdum að utan að ljúka en eins hefur verið unnið að umbótum á húsinu að innan. Ég held að allir séu sammála um að hér hefur tekist afar vel til. Við ætlum að fylgja þessum umbótum eftir með skýrum hætti og það hafa verið settar ákveðnar reglur um umgengni á lóðinni. Við viljum ekki bara hafa húsið til fyrirmyndar, við viljum líka að allt umhverfið sé þannig,“ segir Adolf.
Það er reyðfirska fyrirtækið Og synir – ofurtólið ehf. sem hefur séð um framkvæmdir við fiskvinnslustöðina, en rafverktaki hefur verið Ólafur Birgisson. Mannvit hefur haft eftirlit með framkvæmdunum.