Fyrir yfirstandandi loðnuvertíð setti Fjarðanet upp tvær nýjar grunnnætur, aðra fyrir Börk NK og hina fyrir Vilhelm Þorsteinsson EA. Nótin fyrir Börk NK var sett upp í Neskaupstað en nótin fyrir Vilhelm Þorsteinsson EA á Akureyri. Fjarðanet hf. rekur alhliða veiðarfæraþjónustu á fjórum stöðum á landinu; Neskaupstað, Akureyri, Ísafirði og Fáskrúðsfirði.
Hönnun og uppsetning nýju nótanna var unnin af starfsfólki Fjarðanets en netið í þær flutt inn frá Kína. Næturnar eru 230 faðma langar og 60 faðma djúpar, hefðbundnar grunn- eða vetrarnætur. Þessar nýju nætur eru þó sterkari en eldri nætur því skipin hafa stækkað og álagið á veiðarfærin aukist í samræmi við það.
Á vegum Fjarðanets er unnið með reglubundnum hætti að viðhaldi og endurnýjun loðnu- og síldarnóta en ný nót hefur ekki verið sett upp hjá fyrirtækinu um langt skeið. Reyndar hefur ný nót ekki verið sett upp í Neskaupstað síðan 1978, en þá setti fyrirrennari Fjarðanets þar, Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar hf., upp nót fyrir Magnús NK.