Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri ávarpar gesti í brúnni á Beiti NK. Ljósm. Hákon ErnusonGunnþór Ingvason framkvæmdastjóri ávarpar gesti í brúnni á Beiti NK. Ljósm. Hákon ErnusonSl. sunnudag var móttökuathöfn um borð í Beiti NK, hinu nýja skipi Síldarvinnslunnar. Að móttökuathöfninni lokinni var skipið til sýnis. Fjöldi fólks kom og skoðaði skipið ásamt því að þiggja veitingar um borð. Móttökuathöfnin fór fram í brú skipsins og greindi Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri þar frá skipakaupum Síldarvinnslunnar og framtíðarsýn félagsins í þeim efnum. Þá tóku til máls Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri Samvinnufélags útgerðarmanna, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri í Fjarðabyggð, Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Gunnar Þór Sigbjörnsson útibússtjóri Sjóvár og færðu þeir allir Síldarvinnslunni og áhöfn hins nýja skips árnaðaróskir. Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur blessaði síðan skipið og áhöfn þess.
 
Allir sem skoðuðu skipið þennan dag virtust mjög hrifnir. Aðbúnaður áhafnar er eins og best verður á kosið og höfðu sumir á orði að hann væri vart unnt að bæta. Þá er allur tækjabúnaður um borð afar öflugur og vinnuaðstæður til fyrirmyndar.