Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar fyrr í dag. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson
Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar sem haldinn var í dag í Egilsbúð í Neskaupstað. Fundinn sóttu sjómenn og starfsmenn landvinnslu í Neskaupstað og Seyðisfirði ásamt starfsmönnum Gullbergs ehf. á Seyðisfirði en í þeim hópi voru einnig skipverjar á Gullver NS. Þá sátu fundinn gestir frá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Fundurinn bar yfirskriftina Hvernig á að byggja upp heilbrigðan vinnustað ?
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar setti fundinn og fjallaði um mikilvægi þess að starfsfólki liði vel á vinnustað og þar byggi það við öruggt og jákvætt umhverfi. Salóme Rut Harðardóttir, íþrótta- og heilsufræðingur, gerði síðan grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði á lífsánægju og starfsumhverfi sjómanna en rannsóknin hefur vakið verulega athygli og töluvert verið um hana fjallað í fjölmiðlum að undanförnu. Þá flutti Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, erindi um starfsanda og liðsheild og Edda Björgvins gerði mikilvægi jákvæðra samskipta og gleði á vinnustað góð skil. Í lokin fjallaði Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, um helstu áherslur í nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins.
Edda Björgvins leikkona fjallaði um gleði á vinnustað. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson
Í lok fundar var brugðið á leik og stofnuð í skyndi hljómsveit þar sem framkvæmdastjórinn sýndi snilldartakta á bassa og Helga Ingibjargardóttir, starfsmaður í fiskvinnslustöð Gullbergs sá um að slá taktinn. Gítarspil annaðist síðan Jón Hilmar Kárason og sá til þess að útkoman var glæsileg.
Að fundi loknum var öllum gestum boðið upp á góðar veitingar og kvöddu þeir Egilsbúð saddir og glaðir.
Nýjasta hljómsveit landsins. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson