Alsæl fjöskylda að loknum makríltúr. Ljósm. Hákon ErnusonAlsæl fjöskylda að loknum makríltúr. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kom til hafnar í Neskaupstað í gærkvöldi með 735 tonn af makríl sem verið er að vinna í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Aflinn fékkst í fjórum holum á 15 klukkustundum þannig að aflabrögðin verða að teljast afar góð. Með í þessari veiðiferð var fjölskylda Atla Rúnars Eysteinssonar stýrimanns; Ingibjörg Ösp Jónasardóttir kona hans og synirnir Sölvi Þór sex ára og Sindri tveggja ára. 
 
Atli Rúnar var afskaplega ánægður með túrinn: „Það var ljúft og gott að hafa þau með og það er augljóst að þau eru engar fiskifælur,“ sagði Atli Rúnar. „Þau voru glöð og kát allan túrinn og hann var algjört ævintýri fyrir strákana.“  
 
Ingibjörg Ösp tók undir með manni sínum: „Þetta var rosalega skemmtilegt og það fór afar vel um okkur um borð. Skipið hreyfðist ekki og ekkert bar á sjóveiki. Ég hef einu sinni áður farið í sjóróður, en það var með pabba á dragnótabáti frá Þorlákshöfn og þá var ég sko sjóveik. Ég var feginn því að svona vel fiskaðist, en við hefðum örugglega fengið að heyra það ef illa hefði gengið. Meira að segja höfðu menn orð á því um borð að líklega væri best að setja Atla Rúnar í land og hafa okkur áfram um borð því við hefðum augljóslega góð áhrif á fiskiríið. Það var gaman að sjá hvernig þessar veiðar fara fram og litlu strákarnir skemmtu sér vel. Þeir fengu lifandi fiska, settu þá í fiskikar og fylgdust með þeim. Í karinu voru makríll, síld, nokkrir urrarar og síðan steinsuga sem vakti hvað mesta lukku. Strákunum var kennt að búa sig rétt og þeir voru með hjálma og í björgunarvestum ef farið var út á dekk. Á útstíminu og landstíminu sátum við mest í fína borðsalnum og þar var örugglega horft á tuttugu teiknimyndir. Í einu orði sagt var þessi túr frábær,“ sagði Ingibjörg Ösp að lokum.